Lög Ungmennafélagsins Skallagríms

 

1.gr.

Félagið heitir Ungmennafélagið Skallagrímur, skammstafað UMF. Skallagrímur. Heimili félagsins og varnarþing er Borgarnes í Borgarbyggð.

 

2.gr.

Markmið félagsins eru:

·        Að reyna eftir megni að vekja löngun hjá félagsmönnum til að vinna að frelsi, framförum og heill sjálfra sín og þjóðar af mannúð og réttlæti.

·        Að vernda þjóðlega menningu.

·        Að auka áhuga félagsmanna og almennings á líkamsrækt og stuðla að alhliða íþróttaiðkun.

·        Að auka áhuga félagsmanna á hverskonar félags-og tómstundastarfi.

·        Að vinna gegn tóbaksreykingum, neyslu áfengis og annarra skaðnautna s.s. vímuefna.

·        Að vinna að markmiðjum og stefnuskrá Ungmennafélags Íslands með kjörorðunum “ Íslandi allt”.

 

3.gr.

Markmiðum sínum hyggst félagið ná með fundahöldum, námskeiðum, íþróttaæfingum, félagsstarfi og ýmiskonar framkvæmdum sem bestar þykja á hverjum tíma.

 

 

4.gr.

Aðallitir í keppnis– og æfingabúningum félagsins skulu vera grænn og gulur. Félagsmerki skal áfest vinstra megin á barmi búningsins.

Hverri deild innan félagsins er heimilt að útfæra ofangreinda aðalliti á keppnisbúningum að eigin vild, en þó fá staðfestingu aðalstjórnar.

 

5.gr.

Merki félagsins er hjálmur á skildi. Á hjálminum er bókstafurinn S ásamt skammstöfuninni UMF. Heimilt er hverri deild að setja á aðra búninga en keppnisbúninga táknmerki viðkomandi deildar og stofnár.

 

6.gr.

Félagið er myndað af einstaklingum í deildum samkvæmt sérstakri spjaldskrá, en deildirnar hafa sameiginlega aðalstjórn, sem er æðsti aðili félagsins milli aðalfunda.

 

7.gr.

Félagi getur hver sá orðið sem er sjö ára eða eldri og leggur fram skriflega beiðni um félagsaðild og er samþykktur af meirihluta stjórnar þeirrar deildarf sem hann óskar eftir að vera skráður í. Tveir fullgildir félagsmenn þurfa að votta beiðni um félagsaðild ef viðkomandi er undir sextán ára aldri. Heimilt er að skrá sig í fleiri en eina deild.

 

8.gr.

Úrsögn úr einstökum deildum skal tilkynna skriflega til aðalstjórnar. Aðalstjórn staðfestir úrsögn ef viðkomandi er skuldlaus við félagið. Félagar sem ekki hafa greitt árgjald til félagsins tvö ár í röð hafa fyrirgert öllum réttindum sínum innan félagsins og skulu ekki taldir félagar eftir þann tíma, þó hefur félagið rétt til að krefja þá um áfallin gjöld.

 

9.gr.

Hver sá sem hyggst taka þátt í keppni fyrir hönd félagsins verður að uppfylla ákvæði 7.greinar hér að framan að öðrum kosti telst viðkomandi ólöglegur og félaginu óviðkomandi.

 

10.gr.

Heimilt er deildarstjórnum að afla styrktarfélaga sem eru undanþegnir þátttöku í störfum á vegum viðkomandi deildar.

 

11.gr.

Aðalfundur félagsins ákveður upphæð árgjalds og þau aldursmörk sem innheimta skal miðast við.

 

12.gr.

Formenn allra starfandi deilda skipar aðalstjórn félagsins. Stjórnin skiptir með sér verkum.

Formenn geta kallað til sín varamann úr stjórn sinnar deildar.

 

 

13.gr.

Stjórn félagsins annast öll mál þess milli aðalfunda. Stjórninni er heimilt að skipa sérstakar nefndir ef hún álítur þess þörf.

 

14.gr.

Meginverkefni aðalstjórnar:

·        Annast umsjón og stjórn á sameiginlegum fjárhag félagsins.

·        Sjá um bókhald félagsins.

·        Annast útgáfu ársskýrslu félagsins samkvæmt upplýsingum frá deildum.

·        Stjórnin skal halda sérstaka gjörðabók yfir stjórnarfundi.

·        Styðja starf deildanna eftir megni.

·        Veita stjórnum deilda aðhald í fjármálum með því að hlutast til um að deildir haldi fjárhagsáætlanir þær sem gerðar eru á hverju ári.

·        Halda fundi með gjaldkerum deilda mánaðarlega til að fylgjast með því að rekstur þeirra sé innan þess ramma sem fjárhagsáætlanir gáfu til kynna.

 

15.gr.

Aðalstjórn er heimilt í samráði við formenn deilda að ráða sér framkvæmdastjóra. Hann tekur laun úr sameiginlegum sjóði félagsins. Aðalstjórn setur framkvæmdastjóra erindisbréf.

 

16.gr.

Fastar tekjur aðalstjórnar skulu vera:

·        Árgjald félagsmanna.

·        Ákveðinn hluti sölulauna vegna getraunasölu innan félagsins.

·        Ágóði af sameiginlegum skemmtunum innan félagsins.

·        Önnur tekjuöflun sem ekki fellur undir verksvið deilda.

 

 

17.gr

Fyrir upphaf hvers almanaksárs skulu stjórnir deilda gera fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og skal hún lögð fyrir aðalstjórn til samþykktar. Fjárhagsáætlun sem aðalstjórn hefur samþykkt skal vera leiðbeinandi um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn U.M.F. Skallagríms á viðkomandi reikningsári. Við gerð fjárhagsáætlunar skal hafa hliðsjón af fjárhagslegri stöðu félagsins og hverrar deildar.

Deildir sem skulda um áramót skulu skila ítarlegri áætlun um niðurgreiðslu skulda með langtíma fjárhagsáætlun.

Deildir skulu skila af sér öllum reikningum annan hvern mánuð og skal bókhald vera fært og uppgert á samræmdu formi. Þannig að hægt sé að fá stöðu hverrar deildar í rauntíma auk þess sem staða félagsins er alltaf skýr.

Heimilt er að endurskoða fjárhagsáætlun U.M.F. Skallagríms, aðalstjórnar og deilda félagsins og gera á henni nauðsynlegar breytingar, ef í ljós koma breytingar á forsendum fjárhagsáætlunar.  Slíkar breytingar öðlast gildi, þegar aðalstjórn félagsins hefur samþykkt þær.

Til útgjalda, sem ekki eru samningsbundin eða leiða af samþykkt aðalstjórnar U.M.F. Skallagíms, má ekki stofna nema til komi samþykki aðalstjórnar.

 

 

 

18.gr.

Komi óskir fram meðal félagsmanna um stofnun nýrrar deildar innan félagsins skal aðalstjórn taka þær til athugunar og leggja síðan fyrir aðalafund félagsins.

Samþykki aðalfundurinn stofnun nýrrar deildar skal aðalstjórn sjá um undirbúning stofnfundar samkvæmt 22.grein þessara laga.

 

 

19.gr.

Hver deild félagsins hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Stjórnir deilda ráða íþróttakennara/leiðbeinendur og ákveða laun þeirra. Einnig ráða þær daglegum rekstri deildanna. Hver deild skal annast eigin fjármál og hefur tekjur af:

·        Æfingagjöldum.

·        Styrktarfélagsgjöldum.

·        Ágóða af mótum/skemmtunum viðkomandi deildar.

·        Kennslustyrkjum og öðru fjármagni til skipta.

·        Sölulaun af eigin sölu getraunaseðla samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar.

·        Öðrum fjáröflunum samkvæmt heimild frá aðalstjórn.

 

 

 

 

20.gr.

Stjórn hverrar deildar skal skipa fimm menn kosnir á aðalfundum þeirra til tveggja ára hver: formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.

Formaður og tveir meðstjórnendur skulu kosnir annað árið og ritari og gjaldkeri hitt árið. Allar kosningar skulu vera skriflegar og bundnar við framkomnar uppástungur.

Þeim deildum sem reka meistaraflokk er skylt að hafa unglingaráð.

 

21.gr.

Deildarstjórnir skulu vinna að eflingu sinnar starfsemi, hver á sínu sviði. Halda skal sérstaka gerðarbók um allt markvert sem fram fer innan deildarinnar. Í lok hvers starfsárs skal tekið saman yfirlit um starfsemina sem síðan skal tekið upp í sameiginlegri skýrslu félagsins. Ársyfirlit þetta skal afhenda aðalstjórn félagsins eigi síðar en sjö dögum eftir aðalfundi deilda.

 

22.gr.

Hver deild skal halda nákvæma spjaldskrá yfir félaga deildarinnar bæði virka og óvirka. Allir félagar skulu skráðir í sérstaka spjaldskrá sem aðalstjórn heldur. Nýir félagar sem skráðir eru inn í deildir skulu skráðir á þar til gerð eyðublöð, beiðni um félagsaðild í tvíriti og afritið sent til aðalstjórnar.

 

23.gr.

Aðalfundir deilda skulu haldnir eigi síðar en 10. mars ár hvert.

 

Atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfund deilda hafa allir félagar 16 ára og eldri

( miðað skal við fæðingarár) enda hafi þeir greitt öll lögboðin gjöld í samræmi við spjaldskrá viðkomandi deildar sem liggja skal frammi á fundinum.

Til aðalfundar skal boða með viku fyrirvara.

 

 

 

 

 

Dagskrá aðalfundar deilda skal vera sem hér segir:

1.                  Formaður setur fundinn.

2.                  Kosinn fundarstjóri.

3.                  Kosinn fundarritari.

4.                  Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.

5.                  Formaður gefur skýrslu um starfsemi á liðnu starfsári.

6.                  Gjaldkeri leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga deildarinnar sem síðan eru bornir undir atkvæði.

7.                  Stjórnarkjör.

8.                  Önnur mál.

 

Á aðalfundi deilda ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála. Kosning stjórnar skal vera skrifleg. Ef atkvæði í stjórnarkjöri eru jöfn skal hlutkesti ráða.

 

24.gr.

Aðalfundur félagsins skal haldin eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst viku fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétthafa allir lögmætir félagar. Atkvæðisrétt og kjörgengi til stjórnarstarfa eru lögmætir félagar 16 ára og eldri. Tillögur um breytingar á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær undirritaðar af flytjendum. Heimilt er að taka fyrir á aðalfundi tillögur um breytingar á lögum félagsins sem síðar koma fram ef 2/3 hluti atkvæðisbærra fundarmanna er því samþykkur.

 

 

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1.                  Formaður setur fundinn.

2.                  Kosinn fundarstjóri.

3.                  Kosinn fundarritari.

4.                  Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.

5.                  Aðalstjórn leggur fram skriflega skýrslu um starfsemi félagsins.

6.                  Aðalstjórn leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins og einstakra deilda á liðnu starfsári.

7.                  Umræður um skýrslur og reikninga og afgreiðsla þeirra.

8.                  Ákvörðun tekin um hámarks og lágmarksupphæð árgjalda innan félagsins.

9.                  Ávörp gesta.

10.              Verðlaunaafhending.

11.              Lagabreytingar.

12.              Stjórnarkjör.

13.              Kosnir tveir endurskoðendur og tveir til vara.

14.              Kosnir fulltrúar á ársþing UMSB.

15.              Önnur mál.

 

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála nema þegar um er að ræða breytingar á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast með 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Kosning stjórnar skal vera skrifleg. Séu atkvæði jöfn skal hlutkesti ráða. Aðalfundur félagsins er æðsta vald í öllum málum félagsins.

 

25.gr.

Aðalstjórn skal boða til eins sameiginlegs fundar á ári með öllum stjórnum deilda. Á þessum fundi ger að leggja áherslu á almenn félagsmál og kynningu þessarar forystusveitar innbyrðis.

 

26.gr.

Heiðursfélaga má kjósa og skal þeim afhentur heiðursfáni UMF Skallagríms með áletruðu nafni. Heiður þessi er sá æðsti sem félagið veitir.

Val á heiðursfélaga fer fram á aðalfundi og þarf samþykki 4/5 hluta fundarmanna svo valið teljist lögmætt. Heiðursfélagar eru undanþegnir árgjöldum.

 

27.gr.

Aðalstjórn félagsins og formenn deilda skulu ákvarða um veitingu ÍSÍ-bikarsins til þeirrar deildar sem sýnir mesta félagslega starfið.

Einnig skal aðalstjórn ákvarða um veitingu Skallagrímsbikarsins, samkvæmt þeim reglum sem samþykktar hafa verið um úthlutun hans og skal það gert árlega.

Báðir þessir bikarar skulu afhentir, þegar kunngert er um kjör Íþróttamanns Borgarbyggðar.

 

28.gr.

Reikningsár félagsins og deilda þess skal vera almanaksárið.

 

 

29.gr.

Hætti einhver deildin störfum er stjórn hennar skylt að afhenda eignir til aðalstjórnar félagsins. Deild er óheimilt að hætta störfum nema hún sé skuldlaus eða með samþykki aðalfundar félagsins.

Taki deildin ekki til starfa að nýju innan fimm ára rennur eignir hennar í aðalsjóð félagsins. Verðlaunagripir skulu vera í öruggri vörslu deildarstjórna eða aðalstjórnar. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess afhentar Borgarbyggð til varðveislu og afhendast síðar félagi sem stofnað yrði í Borgarnesi með hliðstæðum markmiðum.

 

30.gr.

Með lögum þessum falla eldri lög félagsins úr gildi.

 

31.gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

 

 Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins  30. mars 2009.

 

 

 

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Skallagrímsgata 7a, 310 Borgarnes