25. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Egill og Páll Axel vonast til að snúa aftur innan tíðar

Eins og flestir hafa tekið eftir hafa þeir Egill Egilsson og Páll Axel Vilbergsson verið meiddir í undanförnum leikjum Skallagríms. Pétur Ingvarsson þjálfari sagði í samtali við heimasíðuna vera vona að nú fari að sjá fyrir endann meiðslum beggja. Hann sagði að Páll Axel væri byrjaður að mæta á æfingar á nýjan leik en sé þó ekki orðinn nægjanlega góður. Þá sagði hann Egil stefna á að mæta á sína fyrstu æfingu í kvöld eftir hvíld. Egill hefur verið að glíma við ökklameiðsli síðan í æfingaleik gegn ÍR í Borgarnesi í byrjun október. Vegna þessa missti hann af fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Hann kom þó tilbaka í heimaleiknum á móti Snæfelli. Í samtali við heimasíðuna kvaðst Egill hafa verið einum of bráður í endurkomunni því ökklameiðslin tóku sig upp á nýjan leik. „Ég fór einfaldlega of fljótt af stað og var í raun bara 50% heill á móti Haukum og Fjölni. Ég, Pétur þjálfari og sjúkraþjálfararnir höfum ákveðið að skynsamlegast sé að ég nái mér 100% áður en ég byrja að spila aftur. Hvenær það gerist verður bara að koma í ljós,“ segir Egill sem vonast til að geta snúið aftur í búninginn sem fyrst.

24. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Snægrímur fær FSu í heimsókn í kvöld

Strákarnir í Snægrími, sameiginlegu liði Skallagríms og Snæfells í unglingaflokki, leika gegn liði FSu frá Selfossi í kvöld. Leikurinn fer fram í Fjósinu í Borgarnesi og hefst kl. 20:00. Snægrímsmenn hafa hingað til leikið fjóra leiki á tímabilinu, sigrað í einum og tapað þremur. Fyrir vikið vermir liðið 7-9. sæti deildarkeppninnar með 2 stig ásamt Keflavík og Haukum. FSu hafa hins vegar staðið sig betur og eru sem stendur í 2-3. sæti með 8 stig ásamt KR. Útlit er fyrir hörkuleik í kvöld og eru allir hvattir til að mæta á leikinn og styðja Snægrímsmenn til sigurs. Þjálfarar Snægríms eru þeir Hafþór Ingi Gunnarsson og Ingi Þór Steinþórsson.

23. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Bikarleikurinn gegn Njarðvík fer fram sunnudaginn 7. desember

KKÍ hefur ákveðið leikdag fyrir leik Skallagríms og Njarðvíkur í 16-liða úrslitum Powerade bikars karla. Leikurinn fer fram sunnudaginn 7. desember nk. kl. 19:15 og verður leikinn í Fjósinu í Borgarnesi. Skallagrímsmenn höfðu áður sigrað lið Aftureldingu í 32-liða úrslitum í nóvember 109:72. Svo skemmtileg vill til að fimmtudaginn 4. desember, þremur dögum fyrir bikarleikinn, munu Skallagrímsmenn leika gegn Njarðvíkingum á þeirra heimavelli í Dominos deildinni.

22. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | 8. flokkur keppir í Borgarnesi um helgina

Það verður líf og fjör heima í Fjósi í Borgarnesi um helgina.
Liðsmenn 8. flokks drengja standa í ströngu um helgina þegar önnur umferð Íslandsmótsins fer fram. Liðið er í B-riðli líkt og á síðasta fjölliðamóti sem að þessu sinni fer fram á heimavelli í Borgarnesi. Með Skallagrími í riðli eru Valur, Breiðablik, Keflavík og Grindavík. Þjálfari 8. flokks er Sigtryggur Arnar Björnsson en það eru drengir fæddir 2001 og fyrr sem keppa með liðinu. Heimasíðan óskar strákunum í 8. flokki góðs gengis í móti helgarinnar og hvetur alla stuðningsmenn til að leggja leið sína niður í Íþróttamiðstöð og hvetja efni framtíðarinnar hjá Skallagrími til sigurs.

22. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Baráttuglaðir Skallagrímsmenn biðu lægri hlut gegn Þórsurum

Tracy Smith Jr. skorar yfir Nemanja Sovic. Tracy skoraði 34 stig í leiknum.
Óhætt er að segja að Skallagrímsmenn hafi tapað með sæmd í Þorlákshöfn í kvöld gegn öflugum Þórsurum. Lokatölur leiksins urðu 100:90 eftir að heimamenn höfðu leitt með 13 stigum í hálfleik, 54:41. Leikurinn einkenndist af nokkrum sveiflum og mikilli baráttu. Þórsarar voru mun sterkari í byrjun og léku við hvurn sinn fingur í fyrsta leikhluta með hinn reynslumikla Nemanja Sovic í broddi fylkingar sem skoraði 17 stig í leikhlutanum. Á meðan áttu Borgnesingar undir högg að sækja í vörninni og voru óheppnir í skotunum í sókninni. Staðan 33:21 fyrir Þór að loknum fyrsta leikhluta.

21. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Útileikur í Þorlákshöfn í kvöld

Sigtryggur Arnar og félagar verða í eldlínunni í kvöld í Þorlákshöfn. Mynd. Ómar Örn.
Skallagrímsmenn fá tækifæri í kvöld til að fylgja góðum árangri í síðasta leik eftir þegar þeir halda suður í Þorlákshöfn til að leika gegn heimamönnum í Þór. Þórsarar hafa átt ágætu gengi að fagna í Dominos deildinni það sem af er vetri. Liðið er með 6 stig á meðan Skallagrímsmenn eru með 2 og má því fastlega búast við hörkuleik milli liðanna í kvöld. Leikurinn hefst á venjulegum tíma eða kl. 19:15. Allir Fjósamenn sem eiga heimangengt eru hvattir til að leggja leið sína í Þorlákshöfn á leikinn og styðja Skallagrímsmenn til sigurs.

Hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau, ánægja þeirra og áhugi er það sem máli skiptir.

 

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Böðvarsgata 1, 310 Borgarnes