24. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Keppni yngri flokka rædd á málþingi KKÍ

Fræðslunefnd KKÍ hefur boðað til málþings um keppnisfyrirkomulag og leikreglur yngri flokka á Íslandi. Í tilkynningu frá sambandinu segir að ræddar verða hugmyndir sem eiga að leiða af sér breytingar til hins betra fyrir næsta vetur og framtíðina. Því sé mikilvægt að sem flestir mæti og taki þátt í mótun og umræðum á þinginu. Málþingið fer fram laugardaginn 29. nóvember nk. Staðsetning þess liggur ekki fyrir en þó er áætlað að það standi yfir þennan dag frá kl. 10-14. ,,Allir unnendur yngri flokka körfubolta og þeir sem vilja láta sig varða málefni málaflokksins eru hvattir til að taka daginn frá og mæta á þingið,” segir að lokum í tilkynningunni.

23. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Gamla myndin: Skallagrímur – Snæfell árið 2004

Hlynur Bæringsson og Jovan Zdravevski berjast um boltann í Fjósinu í Borgarnesi fyrir tæpum áratug síðan. Myndin er samsett.
Af og til í vetur hyggst heimasíðan birta gamlar og skemmtilegar myndir frá leikjum Skallagríms og starfi deildarinnar. Fyrsta myndin sem birtist er skjáskot af mynd sem birtist í opnu umfjöllun DV um körfuboltastemninguna í Borgarnesi og nágrannaslag Skallagríms og Snæfells í úrvalsdeildinni. Umfjöllunin birtist í DV 2. nóvember 2004 en leikurinn sjálfur fór fram nokkrum dögum áður eða 28. október. Eins og svo oft áður var um hörkuleik að ræða og sagði í umfjöllun DV að frammistaða liðanna sýndi ,,að hvorugt liðið mætir til leiks með hálfkák í huga í vetur.” Borgnesingar voru þó sterkari aðilinn í leiknum og unnu að lokum átta stiga sigur, 79:71. Á myndinni hér til hliðar sem Eiríkur Kristófersson tók má sjá þá Jovan Zdravevski og Hlyn Bæringsson í harðri baráttu um boltann. Skallagrímsmennirnir Pálmi Þór Sævarsson, sem síðar varð þjálfari Skallagríms, Clifton Cook og Nick Anderson fylgjast með ásamt Hólmurunum Desmond Peoples og Pálma Frey Sigurgeirssyni. Þetta var fyrsta tímabil Jovans hér á landi og jafnframt hans fyrsta af þremur með Skallagrími. Geta má þess að Pálmi Freyr Sigurgeirsson leikur enn þann dag í dag með Snæfelli. Lið Skallagríms þjálfaði Valur Ingimundarson þetta tímabil, en lið Snæfells þjálfaði Bárður Eyþórsson.

22. október 2014

Knattspyrnudeild | Leikskólabörn á fótboltaæfingu

Það voru ansi margir sem stigu sín fyrstu skref í knattspyrnu í dag þegar krakkar frá leikskólunum Uglukletti og Klettaborg mættu á æfingu hjá knattspyrnudeildinni. 

22. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Búið að draga í 16-liða úrslitum bikarkeppni yngri flokka

Dregið var um hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum bikarkeppni yngri flokka í gær. Skallagrímur sendir fimm flokka til leiks í bikarkeppnina að þessu sinni. Niðurstaða dráttsins hljóðar svona: 9. flokkur drengja mætir KR á útivelli, 10. flokkur drengja mætir Ármanni á útivelli, drengjaflokkur mætir liði Vals á útivelli og loks fær unglingaflokkur heimaleik á móti liði Stjörnunnar. Lið 9. flokks stúlkna situr hins vegar hjá í 16-liða úrslitum. Leikdagar eru mismunandi eftir flokkum en KKÍ á eftir að gefa út endanlega dagsetningu leikja. Tímabil leikdaga í hverjum flokki má hins vegar sjá hér að neðan sem og hvaða önnur lið mætast og sitja hjá í 16-liða úrslitum.

21. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Fullt hús stiga hjá 9. flokki sem tryggði sér sæti í B-riðli

Strákarnir í 9. flokki. Skallagrímur og ÍA tefla fram sameiginlegu liði í þessum aldursflokki í ár.
Sameiginlegt lið Skallagríms og ÍA í 9. flokki drengja vann sér sæti í B-riðli um helgina á Íslandsmótinu þegar liðið keppti á fyrsta fjölliðamóti tímabilsins. Leikið var í C-riðli í Grindavík. Skallagrímur/ÍA lék alls fjóra leiki í mótinu og sigraði þá alla fremur örugglega. Fyrsti leikurinn var gegn sameiginlegu liði Grindavíkur og Þórs Þorlákshafnar og vannst öruggur sextán stiga sigur, 51:36. Næsti leikur var gegn liði Hattar frá Egilsstöðum og eftir hörkuleik unnu okkar drengir Austanmenn með sjö stigum, 58:51. Liðið mætti Fjölni b í þriðja leik sínum og hafði betur með 21 stigi, 54:33. Í lokaleiknum mætti liðið síðan liði ÍR og vann aftur öruggan sigur 58:40. Fullt hús stiga var því staðreynd helgarinnar hjá 9. flokki og var Davíð Ásgeirsson þjálfari liðsins að vonum ánægður með frammistöðuna í samtali við heimasíðuna.

21. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Góður árangur hjá minniboltaliði Skallagríms í fyrsta móti vetrarins

Lið minnibolta 5-6. bekkjar sem keppti á mótinu ásamt Finni Jónssyni þjálfara. Mynd. bbþ.
Strákarnir í minnibolta 11 ára og yngri (5.-6. bekkur) tóku þátt um helgina í sínu fyrsta fjölliðamóti í vetur á Íslandsmótinu. Liðið lék í C-riðli og fór mótið fram í Smáranum í Kópavogi á laugardaginn. Í riðlinum léku strákarnir gegn liðum KR, Hauka og heimamanna í Breiðabliki.  Að sögn Finns Jónssonar þjálfara strákana voru allnokkrir að spila sína fyrstu Íslandsmótsleiki á mótinu og stóð liðið sig svakalega vel sem heild. Fyrsti leikurinn var gegn KR b og eftir spennandi leik þurftu Skallagrímsstrákarnir að játa sig sigraða með sjö stigum, 25:32. Næsti leikur var gegn heimamönnum í Breiðabliki og fóru leikar þannig að Blikar unnu með tíu stigum, 35:45. Lokaleikurinn var svo gegn Haukum og gerðu Skallagrímsstrákarnir sér lítið fyrir og sigruðu leikinn með einu stigi eftir spennandi leik, 33:32. Finnur segir alla liðsmenn hafa sýnt skemmtilega takta á vellinum og benti janframt á að árangurinn væri ekki síst góður í ljósi þess að í Skallagrímsliðinu var helmingur leikmanna á eldra ári (6. bekk) en hinn helmingurinn á yngra ári (5. bekk). Hin liðin voru  að mestu skipuð leikmönnum á eldra ári.

Hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau, ánægja þeirra og áhugi er það sem máli skiptir.

 

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Böðvarsgata 1, 310 Borgarnes