22. október 2014

Knattspyrnudeild | Leikskólabörn á fótboltaæfingu

Það voru ansi margir sem stigu sín fyrstu skref í knattspyrnu í dag þegar krakkar frá leikskólunum Uglukletti og Klettaborg mættu á æfingu hjá knattspyrnudeildinni. 

22. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Búið að draga í 16-liða úrslitum bikarkeppni yngri flokka

Dregið var um hvaða lið mætast í 16-liða úrslitum bikarkeppni yngri flokka í gær. Skallagrímur sendir fimm flokka til leiks í bikarkeppnina að þessu sinni. Niðurstaða dráttsins hljóðar svona: 9. flokkur drengja mætir KR á útivelli, 10. flokkur drengja mætir Ármanni á útivelli, drengjaflokkur mætir liði Vals á útivelli og loks fær unglingaflokkur heimaleik á móti liði Stjörnunnar. Lið 9. flokks stúlkna situr hins vegar hjá í 16-liða úrslitum. Leikdagar eru mismunandi eftir flokkum en KKÍ á eftir að gefa út endanlega dagsetningu leikja. Tímabil leikdaga í hverjum flokki má hins vegar sjá hér að neðan sem og hvaða önnur lið mætast og sitja hjá í 16-liða úrslitum.

21. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Fullt hús stiga hjá 9. flokki sem tryggði sér sæti í B-riðli

Strákarnir í 9. flokki. Skallagrímur og ÍA tefla fram sameiginlegu liði í þessum aldursflokki í ár.
Sameiginlegt lið Skallagríms og ÍA í 9. flokki drengja vann sér sæti í B-riðli um helgina á Íslandsmótinu þegar liðið keppti á fyrsta fjölliðamóti tímabilsins. Leikið var í C-riðli í Grindavík. Skallagrímur/ÍA lék alls fjóra leiki í mótinu og sigraði þá alla fremur örugglega. Fyrsti leikurinn var gegn sameiginlegu liði Grindavíkur og Þórs Þorlákshafnar og vannst öruggur sextán stiga sigur, 51:36. Næsti leikur var gegn liði Hattar frá Egilsstöðum og eftir hörkuleik unnu okkar drengir Austanmenn með sjö stigum, 58:51. Liðið mætti Fjölni b í þriðja leik sínum og hafði betur með 21 stigi, 54:33. Í lokaleiknum mætti liðið síðan liði ÍR og vann aftur öruggan sigur 58:40. Fullt hús stiga var því staðreynd helgarinnar hjá 9. flokki og var Davíð Ásgeirsson þjálfari liðsins að vonum ánægður með frammistöðuna í samtali við heimasíðuna.

21. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Góður árangur hjá minniboltaliði Skallagríms í fyrsta móti vetrarins

Lið minnibolta 5-6. bekkjar sem keppti á mótinu ásamt Finni Jónssyni þjálfara. Mynd. bbþ.
Strákarnir í minnibolta 11 ára og yngri (5.-6. bekkur) tóku þátt um helgina í sínu fyrsta fjölliðamóti í vetur á Íslandsmótinu. Liðið lék í C-riðli og fór mótið fram í Smáranum í Kópavogi á laugardaginn. Í riðlinum léku strákarnir gegn liðum KR, Hauka og heimamanna í Breiðabliki.  Að sögn Finns Jónssonar þjálfara strákana voru allnokkrir að spila sína fyrstu Íslandsmótsleiki á mótinu og stóð liðið sig svakalega vel sem heild. Fyrsti leikurinn var gegn KR b og eftir spennandi leik þurftu Skallagrímsstrákarnir að játa sig sigraða með sjö stigum, 25:32. Næsti leikur var gegn heimamönnum í Breiðabliki og fóru leikar þannig að Blikar unnu með tíu stigum, 35:45. Lokaleikurinn var svo gegn Haukum og gerðu Skallagrímsstrákarnir sér lítið fyrir og sigruðu leikinn með einu stigi eftir spennandi leik, 33:32. Finnur segir alla liðsmenn hafa sýnt skemmtilega takta á vellinum og benti janframt á að árangurinn væri ekki síst góður í ljósi þess að í Skallagrímsliðinu var helmingur leikmanna á eldra ári (6. bekk) en hinn helmingurinn á yngra ári (5. bekk). Hin liðin voru  að mestu skipuð leikmönnum á eldra ári.

17. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Stórsigur hjá drengjaflokki í þriðja sigurleiknum í röð

Valsmenn reyndust Skallagrímsdrengjum lítil fyrirstaða þegar liðin mættust í þriðju umferð 2. deildar á Íslandsmótinu í drengjaflokki á miðvikudaginn í Borgarnesi. Leikurinn var eins langt frá því að vera spennandi og hægt er því Skallagrímur vann leikinn með 113 stigum! Lokatölur urðu 155:42. Kristófer Gíslason var stigahæstur í liði Skallagríms með 41 stig en á eftir honum kom Kristján Örn Ómarsson með 29. Næstir komu Atli Steinar Ingason með 18, Egill Þórsson 17, Hjörtur Bjarnason, Kristinn Freyr Rúnarsson og Sumarliði Páll Sigurbergsson allir með 10, Einar Benedikt Jónsson og Guðbjartur Máni Gíslason 8 hvor og Áki Freyr Hafþórsson 4. Borgnesingar eru því á góði róli í Íslandsmótinu með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir og sitja í efsta sæti 2. deildar með 6 stig.

 

17. október 2014

Körfuknattleiksdeild | Skallagrímslið keppa í tveimur fjölliðamótum um helgina

Körfuboltinn heldur áfram að skoppa um helgina hjá Skallagrími þegar tveir af yngri flokkum félagsins taka þátt í fjölliðamótum á Íslandsmótinu. Þetta eru minnibolti drengja og 9. flokkur. Í minnibolta leika strákar í 6. og 5. bekk og koma þeir til með að keppa í C-riðli í Smáranum í Kópavogi á laugardaginn. Þar munu þeir keppa þrjá leiki, gegn KR b, Breiðabliki og Haukum. Þjálfari liðsins er Finnur Jónsson. 9. flokkur mun aftur á móti halda til Grindavíkur þar sem liðið keppir í C-riðli. Þar mætir 9. flokkur sameiginlegu liði Grindavíkur og Þórs Þorlákshöfn, Hetti, Fjölni b og ÍR. Skallagrímur og ÍA eru með sameiginlegt lið í 9. flokki. Þjálfari liðsins er Davíð Ásgeirsson.

Hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau, ánægja þeirra og áhugi er það sem máli skiptir.

 

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Böðvarsgata 1, 310 Borgarnes