19. desember 2014

Körfuknattleiksdeild | Haraldur Már Stefánsson ráðinn verkefnisstjóri yngri flokka

Haraldur Már og Kristinn Ó. Sigmundsson formaður kkd. Skallagríms handsala ráðninguna.
Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Harald Má Stefánsson til að taka að sér verkefnastjórn og umsjón með yngri flokka starfi deildarinnar í samstarfi við yngri flokka ráð og Pálma Þór Sævarsson yfirþjálfara. Haraldur Már, sem er borinn og barnfæddur Borgnesingur, er íþróttafræðingur frá KHÍ og golfvallarfræðingur að mennt. Hann hefur góða reynslu af íþróttaþjálfun og skipulagningu íþróttastarfs barna- og unglinga, en hann hefur m.a. komið að skipulagningu slíks starfs hjá Golfklúbbi Borgarness undanfarin misseri. Haraldur æfði körfubolta á sínum yngri árum með Skallagrími og þá á hann leiki að baki með meistaraflokki félagsins í úrvalsdeild og Umf. Stafholtstungum í 1. deild. Stjórn kkd. Skallagríms býður Harald Má velkomin til starfa en eitt af verkefnum hans verður að leiða starf deildarinnar að því markmiði að hún öðlist rétt til þess að kalla sig „Fyrirmyndafélag innan ÍSÍ“. Haraldur hefur störf frá og með áramótum.

19. desember 2014

Körfuknattleiksdeild | Stórt tap gegn öflugum Tindastólsmönnum

Ekki reyndist ferð Skallagrímsmanna í Skagafjörðinn í gær frægðarför því liðið tapaði stórt gegn heimamönnum í Tindastóli 104:68. Leikurinn var mun jafnari í fyrri hálfleik og var staðan eftir fyrsta leikhluta 29:21 fyrir heimamenn. Staðan í hálfleik var einunigs 44:38. Tindastólsmenn léku hins vegar afbragðsvel í síðari hálfleik á móti slöku liði okkar manna. Liðið skoraði 30 stig í hvorum leikhluta og lék á móti góða vörn. Að endingu var munurinn orðinn allt of mikill og ljóst að Skagfirðingar bæru ekki sigur úr býtum. Lokatölur eins og áður sagði 104:68 og treystu Stólarnir þar með stöðu sína í 2. sæti Dominos deildarinnar. Skallagrímsmenn eru aftur á móti áfram í 10. - 12. sæti deildarinnar með 4 stig ásamt ÍR og Fjölni sem einnig töpuðu í gær.

18. desember 2014

Knattspyrnudeild | Jólafrí knattspyrnudeildar

jólafrí knattspyrnudeildar hefst eftir þessa viku, síðustu æfingar eru á laugardaginn. Æfingar hefjast síðan á sama tíma og skólinn eða 5. janúar. Einhverjir flokkar ætla þó að vera með eitthvað sprell í fríinu og er það ákvörðun þjálfara hvers flokks.

 

Fyrir hönd knattspyrnudeildar

 

Gleðileg jól  

18. desember 2014

Körfuknattleiksdeild | Skallagrímsmenn keppa á Sauðárkróki í kvöld

Skallagrímsmenn leika síðasta leik sinn í Dominos deildinni í kvöld þegar þeir keppa gegn liði Tindastóls. Leikurinn fer fram í Síkinu á Sauðárkróki. Skagfirðingar hafa átt góðu gengi að fagna á tímabilinu og eru nú í 2. sæti deildarinnar með 16 stig. Skallagrímsmenn eru á móti í 10. - 12. sæti ásamt ÍR og Fjölni með 4 stig, en þeir hafa óðum verið að sýna sitt rétta andlit í síðustu leikjum. Leikur kvöldsins hefst kl. 19:15 og verður hann sýndur í beinni útsendingu á netinu á Tindastóll TV. Slóð útsendingarinnar má nálgast hér. Einnig er hægt að fylgjast með lifandi tölfræðilýsingu frá leiknum á heimasíðu KKÍ.

17. desember 2014

Körfuknattleiksdeild | Jólafrí yngri flokka hefst á föstudaginn

Nú styttist óðum til jólanna. Síðustu æfingar hjá yngri flokkum körfuknattleiksdeildar Skallagríms fyrir jólafrí fara fram á morgun, fimmtudaginn 18.desember. Æfingar hefjast svo af krafti á nýju ári samkvæmt æfingatöflu mánudaginn 5.janúar nk., sama dag og kennsla í grunnskólanum byrjar. Körfuknattleiksdeild Skallagríms sendir hinni stóru og góðu körfuboltafjölskyldu innan vébanda deildarinnar, iðkendum og foreldrum, sínar bestu jólakveðjur með von um farsæld á komandi körfuboltaári.

 Mætið bæði á leiki og á æfingar
    - það hvetur og uppörvar börnin að finna fyrir áhuga ykkar.

  

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Böðvarsgata 1, 310 Borgarnes