21. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Útileikur í Þorlákshöfn í kvöld

Sigtryggur Arnar og félagar verða í eldlínunni í kvöld í Þorlákshöfn. Mynd. Ómar Örn.
Skallagrímsmenn fá tækifæri í kvöld til að fylgja góðum árangri í síðasta leik eftir þegar þeir halda suður í Þorlákshöfn til að leika gegn heimamönnum í Þór. Þórsarar hafa átt ágætu gengi að fagna í Dominos deildinni það sem af er vetri. Liðið er með 6 stig á meðan Skallagrímsmenn eru með 2 og má því fastlega búast við hörkuleik milli liðanna í kvöld. Leikurinn hefst á venjulegum tíma eða kl. 19:15. Allir Fjósamenn sem eiga heimangengt eru hvattir til að leggja leið sína í Þorlákshöfn á leikinn og styðja Skallagrímsmenn til sigurs.

20. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Nýr skammtur af ýsu og þorski frá Brimi Seafood kominn í sölu

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur nú fengið nýja sendingu af sjófrystri ýsu og þorski frá útgerðarfyrirtækinu Brimi Seafood. Deildin selur fiskinn í um 9. kg öskjum á kostakjörum eða 14.400 kr. askjan. Það gerir 1.600 kr/kg. Um er að ræða hágæða vöru sem er í flokki fisks sem Brim Seafood hefur sérvalið til útflutnings. Ágóðinn af sölu fisksins mun renna til yngri flokka starfs deildarinnar og annara verkefna hennar. Foreldrar iðkenda munu annast sölu fisksins á næstu dögum og er stefnan sú að ganga í hús í Borgarnesi og bjóða hann til sölu. Að auki er hægt að panta öskjur með því að senda tölvupóst á netfang körfuknattleiksdeildar: skallagrimurkarfa@gmail.com. Deildin mun sjá um að koma öskjunum til kaupandans.

20. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Tóku mikilvæg framfaraskref í erfiðum B-riðli í Keflavík

Liðsmenn 9. flokks. Myndin var tekin á fyrsta fjölliðamóti vetrarins í október.
9. flokkur drengja helt suður til Keflavíkur um síðustu helgi til að keppa í öðru fjölliðamóti vetrarins. 9. flokkur keppti í B-riðli að þessu sinni, en liðið sigraði síðasta mót í C-riðli. Í fyrsta leik sínum mættu strákarnir heimamönnum í Keflavík. Við ramman reip var að draga í leiknum og sigruðu heimamenn að endingu 40:70. Næsti leikur var gegn Þór Akureyri sem höfðu betur með sextán stigum, 44:60. Lið Snæfells var mótherjinn í þriðja leiknum. Leikurinn var jafn framan af en Hólmarar höfðu þó á endanum betur 31:41. Í lokaleiknum mættu loks strákarnir liði Breiðabliks. Blikar höfðu undirtökin í leiknum og sigruðu að endingu 36:62.

19. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Strákarnir í minnibolta hársbreidd frá því að halda sér í B-riðli

Minniboltastrákarnir taka eina góða "berju" með Finni þjálfara á mótinu í Rimaskóla. Mynd. bbþ.
Strákarnir í minnibolta kepptu í öðru fjölliðamóti vetrarins á Íslandsmótinu um síðustu helgi. Strákarnir léku í B-riðli sem fram fór í Rimaskóla í Grafarvogi í Reykjavík. Í fyrsta leik mættu Skallagrímsstrákarnir heimamönnum í Fjölni og fóru leikar þannig að Fjölnir sigraði 34:25 eftir hörkuleik. Í næsta leik mætti Skallagrímur grönnum sínum í Snæfelli. Þar höfðu Hólmarar betur og sigruðu 56:36. Þriðji leikurinn var gegn liði Breiðabliks og endaði leikurinn á óvenjulegan hátt, með jafntefli 28:28. Jafntefli eru nefnilega möguleg í keppni minnibolta samkvæmt reglugerð KKÍ. Lokaleikurinn var síðan gegn sterku liði Grindvíkinga sem sigraði örugglega 71:20.

18. nóvember 2014

Körfuknattleiksdeild | Laugaland hf. garðyrkjustöð gerir samning við körfuknattleiksdeild Skallagríms

Þórhallur Bjarnason stjórnarform. Laugalands hf. og Kristinn Ó. Sigmundsson form. kkd. Skallagríms handsala samninginn. Mynd. Ómar Örn.
Körfuknattleiksdeild Skallagríms og Laugaland hf. garðyrkjustöð að Laugalandi í Stafholtstungum í Borgarfirði hafa gert með sér samstarfssamning. Þeir Þórhallur Bjarnason stjórnarformaður og eigandi Laugalands hf. og Kristinn Ó. Sigmundsson formaður kkd. Skallagríms skrifuðu undir samninginn á heimaleik Skallagríms og Stjörnunnar sl. fimmtudag. Samningurinn gildir til næstu tveggja ára. Laugland hf. er fjölskyldufyrirtæki sem hefur sérhæft sig í framleiðslu á gúrkum með vistvænum hætti í gróðurhúsum heima að Laugalandi. Það hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi eða frá árinu 1942. Í dag er það í eigu hjónanna Þórhalls Bjarnasonar og Erlu Gunnlaugsdóttur.

18. nóvember 2014

Knattspyrnudeild | 4. flokkur drengja í fjáröflun

 4. flokkur drengja hjá Skallagrím stefnir á að taka þátt í móti utan landsteinanna næsta sumar en verið er að skoða mót á Norðurlöndunum. 4. flokkur drengja er öflugur hjá okkur í ár en allt að 20 strákar hafa verið að mæta á æfingar un

strákarnir seldu kökur fyrir utan Nettó um helgina
danfarið. Ferðir sem þessi er ekki gefins og hafa strákarnir og foreldrar þeirra nú þegar hafið fjáröflun fyrir herlegheitin. Núna síðustu helgi seldu þeir kökur fyrir utan Nettó og eru fleiri fjáraflanir ráðgerðar á næstunni. Meðal annars verður farið í dósasöfnun og sölu á klósettpappír þar sem gengið verður í hús og teknar niður pantanir. Við viljum biðja fólk að taka vel á móti strákunum þegar þeir banka upp á.

Hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau, ánægja þeirra og áhugi er það sem máli skiptir.

 

 

Ungmennafélagið Skallagrímur | kennitala: 580269-6219 | Skallagrimur@skallagrimur.is | Böðvarsgata 1, 310 Borgarnes